Vörur

Fyrirtækið

Hafa Samband

Vörur

Fyrirtækið

Hafa Samband

Vörur

Fyrirtækið

Hafa Samband

Stefán Hrafn Hagalín

Samskiptaráðgjafi

Steinar Björnsson fjárfestir í Snjallgögnum

Steinar Björnsson hefur bæst við hluthafahóp Snjallgagna. Aðrir bakhjarlar eru Bright Ventures, Founders Ventures, og fleiri.

Steinar Björnsson hefur nú bæst við hluthafahóp sprotafyrirtækisins Snjallgagna. Aðrir bakhjarlar Snjallgagna í dag eru Bright Ventures og Gísli Kr., Founders Ventures, Icelandic Venture Studio, MGMT Ventures og Tennin. Snjallgögn er tíu manna hugbúnaðarhús með höfuðstöðvar í Reykjavík. Fyrirtækið þróar lausnir er gera vinnustöðum mögulegt að hagnýta gervigreind og gagnavísindi til að efla sölu og þjónustu ásamt því að bæta daglegan rekstur.

Bakgrunnur í ferðaþjónustu

Steinar Björnsson tók þátt í byggja upp ferðaþjónustufyrirtækið Extreme Iceland frá árinu 2009, en það sameinaðist síðan Arctic Adventures árið 2017. Hann starfaði áfram hjá Arctic Adventures til ársins 2023 þegar hann seldi sinn hlut í fyrirtækinu til Stoða. „Ég einblíndi á hugbúnaðarþróun, markaðssetningu og tæknimál. Kom einnig að því að setja upp skrifstofu fyrir félagið í Litháen, þar sem ég bjó svo í tæp tvö ár. Í dag starfa ég sem fjárfestir og ráðgjafi og hef sérstakan áhuga á nýsköpun og sprotafyrirtækjum,“ segir Steinar.

Verðmætur liðsauki

„Við hjá Snjallgögnum erum afskaplega upptekin af því að fjárfestar í fyrirtækinu komi með dýrmæta sérþekkingu að borðinu, sem nýtist okkur til að skapa sóknarfæri. Bakgrunnur Steinars er í ferðaþjónustu og í þeirri verðmætu atvinnugrein leynast margir af okkar stærstu viðskiptavinum. Dágóður hluti af lausnasafni Snjallgagna var einmitt upprunalega þróaður og smíðaður til að fást við þær milljónir fyrirspurna sem íslenskri ferðaþjónustu berst á ársgrundvelli. Steinar þekkir okkur því vel og hefur mikinn skilning á viðfangsefnum okkar. Hann er okkur verðmætur liðsauki,“ segir Stefán Baxter, forstjóri Snjallgagna og einn af stofnendum fyrirtækisins.

Háfleygur fjárfestir

„Ég er mjög spenntur fyrir því að koma inn í hluthafahópinn hjá Snjallgögnum. Félagið er með einstaklega spennandi vörur og mitt mat er að það geti verið leiðandi á gervigreindarsviðinu hér heima um ókomna tíð. Hugbúnaðurinn skalast vel og tækifæri til útrásar eru mikil. Hagnýting á gervigreind er rétt að byrja á Íslandi og atvinnulífið mun án efa njóta góðs af samstarfi við Snjallgögn. Ég ætla að leyfa mér að vera háfleygur og halda því fram að framleiðni á vinnustöðum sem hagnýta gervigreind muni vakna úr dvala og fara á flug til heilla fyrir land og þjóð!“ bætir Steinar við.

Lykilvara Snjallgagna er gervigreindarkerfið Context Suite, sem er safn hugbúnaðarlausna og inniheldur meðal annars þjónustugreind, eftirspurnargreind og snjallmennið Mími.