

Stefán Hrafn Hagalín
Samskiptaráðgjafi
Snjallgögn með RARIK á CIRED í Genf
Snjallgögn og RARIK kynntu nýstárlegt samstarfsverkefni á alþjóðlega rafdreifingarþinginu CIRED í Genf fyrir skemmstu.
Verkefnið snýr að þróun spálíkans fyrir álagstoppa til að bregðast við breytilegu álagi á raforkukerfið. Líkanið byggir á gagnavísindum og gervigreind og það er notað til að meta og spá fyrir um álag á dreifikerfið við Vík í Mýrdal, en þar getur notkun sveiflast mikið með stuttum fyrirvara.
Fjölmennt þing
Það voru þeir Óli Páll Geirsson, fyrir hönd Snjallgagna, og Kári Hreinsson og Andri V. Kristmannsson, fyrir hönd RARIK, sem kynntu niðurstöður úr samstarfsverkefni fyrirtækjanna fyrir fullum sal alþjóðlegra sérfræðinga á CIRED. Þingið er haldið annað hvort ár og fór núna fram í 28. sinn. Þingið sóttu yfir 2.650 manns frá 72 löndum, en flutt voru 1.022 erindi og 129 fyrirtæki kynntu vörur sínar og þjónustu. CIRED var að þessu sinni haldið í hinum glæsilega Palexpo-sýningarsal í Genf í Sviss.
Mikilvægt skref til framtíðar
,,Á CIRED koma saman stjórnendur rafdreifingarfyrirtækja, vísindamenn, ráðgjafar og tæknifyrirtæki til að ræða áskoranir og tækifæri í raforkukerfum framtíðar, svo sem orkuskipti, stafræna netstjórnun og sjálfbærni. Þessi mikla aðsókn ber vitni um alþjóðlega þýðingu þingsins og þá vel heppnuðu þekkingarmiðlun sem þar fer fram. Ef ég má vera háfleygur, þá er þetta spennandi samstarfsverkefni Snjallgagna og RARIK mikilvægt skref í átt að frekari nýtingu gagna, dýpri greiningum og þróun nýrra lausna fyrir orkukerfi framtíðarinnar ,” segir Óli Páll.
Söguleg gögn og ytri breytur
,,Til að auka nákvæmni spár byggir líkanið ekki aðeins á sögulegum gögnum um raforkunotkun, heldur einnig á ytri breytum á borð við veðurfar, umferð, fjölda ferðamanna og atburði á svæðinu. Með nákvæmri fyrirspá um álagstoppa getur RARIK brugðist tímanlega við með viðeigandi aðgerðum, jafnað álagið og þannig tryggt stöðugleika og afhendingaröryggi á svæðinu,” bætir hann við.
Hagnýtar niðurstöður
Verkefnið skilaði skýrum og hagnýtum niðurstöðum sem hafa raunverulegt gildi fyrir rekstur raforkudreifikerfa. Sýnt var fram á hvernig spálíkanið getur styrkt rekstur dreifiveitna og dregið úr bilanahættu með áreiðanlegri spá. Óli Páll segir þátttöku Snjallgagna og RARIK í alþjóðlegum þingum af þessu tagi auka sýnileika og traust, ásamt því sem dýrmæt tengsl myndast og nýir samstarfsmöguleikar verða til.
Góðar undirtektir
Kynningin markaði að mati Óla Páls mikilvæg tímamót, en hún vakti mikinn áhuga meðal fagaðila og sérfræðinga á þinginu. ,,Líflegar umræður, fjöldi spurninga og áhugi í kjölfarið báru vott um að verkefnið hitti í mark og það er gaman að segja frá því að viðstaddir töldu aðferðafræði okkar áreiðanlega, hagkvæma og það sem koma skal í nánustu framtíð. Andrúmsloftið var afar jákvætt og ljóst að umræðan mun halda áfram,” segir Óli Páll.
MYNDARTEXTI
Svipmynd af íslensku sendinefndinni á CIRED-þinginu.